151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:29]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Í fyrra andsvari mínu langar mig að spyrja hæstv. ráðherra nánar út í tvennt sem rætt hefur verið hér fyrr í umræðunni. Í fyrsta lagi um námslánakerfið. Við erum sammála um að það hafi verið löngu tímabært að uppfæra það og mikilvægt að það hafi náðst í höfn. En að sama skapi var svekkjandi, það er eitt af orðunum sem við getum notað, að ekki hafi verið hækkuð grunnframfærsla stúdenta fyrir þann vetur sem nú er byrjaður, sérstaklega vegna þess að möguleikar stúdenta á því að vinna meðfram námi eru nánast að engu orðnir á þessu misseri.

Hæstv. ráðherra sagði í umræðunni áðan, ef ég skildi hana rétt, að verið væri að kanna að endurskoða grunnframfærsluna. En þess sér ekki stað í fjármálaáætlun. Þess vegna langar mig að fá það alveg á hreint að verið sé að vinna að því að hækka grunnframfærslu stúdenta. Það er svo sannarlega þörf á. Það var fyrra atriðið sem mig langaði að spyrja um.

Hitt er það sem ég heyrði ráðherrann segja í andsvari við hv. þm. Guðmund Andra Thorsson. Ég vildi bara athuga hvort mér hefði misheyrst. Ráðherra sagði, með leyfi forseta: Við munum endurskoða ríkisfjármálaáætlun áður en kjörtímabilinu lýkur. En nú er þetta ríkisfjármálaáætlun sem lögð er fram á síðasta löggjafarþingi kjörtímabils. Það á ekkert að endurskoða hana, fyrir kosningar sem eru eftir tæpt ár, er það? Voru það ekki örugglega bara mismæli hjá ráðherra?