151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Jú, þetta voru mismæli. Ég vil nefna það varðandi Menntasjóðinn að þar hefur náttúrlega algjör kerfisbreyting átt sér stað. Þar erum við búin að fella niður ábyrgðir. Við höfum verið að hækka grunnframfærsluna á kjörtímabilinu talsvert, en við getum gert betur þrátt fyrir að við sjáum það ekki í þessari ríkisfjármálaáætlun. Það er alveg ljóst að við þurfum að passa upp á að allir geti lifað af þeim styrkjum og námslánum sem í boði eru. Við vitum að það þarf líklega til framtíðar að gera betur hvað það varðar, ég tek undir það.

Hv. þingmaður nefnir það sem ég er algerlega sammála, að í þessu efnahagsáfalli hafa möguleikar námsmanna til þess að afla sér tekna minnkað verulega. En það eru líka tækifæri hvað það varðar. Við höfum séð að íslenskir námsmenn hafa unnið gríðarlega mikið með námi og þeir hafa verið lengur í námi og útskrifast seinna vegna þess. Ég held að við eigum líka að huga að því núna á hinu háa Alþingi hvernig við getum styrkt enn frekar umgjörð íslenskra námsmanna. Við höfum svo sannarlega tekið mjög stór skref með Menntasjóði námsmanna. Við höfum verið að hækka frítekjumarkið og fimmfölduðum það sérstaklega fyrir þá sem eru að koma nýir inn í menntakerfið til að taka mið af þeim aðstæðum sem uppi eru.