151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:33]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Ég er hjartanlega sammála hæstv. ráðherra að best væri ef stúdentar þyrftu ekki að vinna með námi og gætu bara einbeitt sér að náminu, lokið því hraðar, fengið meira út úr því og haft það betra almennt. Staðan er hins vegar sú að grunnframfærslan eins og hún er í dag miðast við að fólk sé að vinna með námi. Þess vegna er svo brýnt að endurskoða grunnframfærsluna almennt, en sérstaklega nú þegar erfitt er að fá aukatekjur sem stúdentar þurfa til að geta lifað af.

Ég ætlaði að ræða annað í seinna andsvari mínu. Það er nokkuð sem ég ræddi við hæstv. félags- og barnamálaráðherra áðan, sem er brúin á milli þessara tveggja ráðherra, brúin á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Hana þarf að byggja á næsta ári, vegna þess að ef við lengjum fæðingarorlofið upp í 12 mánuði núna um áramótin verða þau börn 12 mánaða gömul undir lok næsta árs. Þá þarf að vera til staðar leikskóli til að taka við þeim. Sú er alls ekki raunin í stærstu sveitarfélögum landsins. Félags- og barnamálaráðherra sagði að það þyrfti að þrýsta á sveitarfélögin, það þyrfti að hvetja þau áfram — á sama tíma og sveitarfélögin standa frammi fyrir sögulegu tekjufalli.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Þarf ekki að gera eitthvað meira? Þarf ríkið ekki að setjast niður með sveitarfélögunum, líta aðeins yfir múrinn á milli þessara tveggja stjórnsýslustiga, sem öllum fyrir utan þessa veggi er slétt sama um þegar kemur að því að tryggja fólki grunnþjónustu? Þarf ekki að vinna þetta saman og sjá til þess að þetta fyrsta skólastig okkar sem leikskólinn er, standi undir nafni og standi börnum til boða frá 12 mánaða aldri eftir ár?