151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þau málefnasvið sem falla undir mitt verksvið eru málefnasvið 12, 13 og síðan að hluta 7, 16 og 21. Helstu fjárhagsstærðir varðandi landbúnaðinn eru u.þ.b. 17 milljarðar kr. árlega og u.þ.b. 7 milljarðar kr. varðandi sjávarútveg og fiskeldi. Stærstu breytingarnar á fjárhæðum á áætlunartímabilinu snúa að byggingu nýs hafrannsóknarskips en að öðru leyti eru ekki stórvægilegar breytingar á útgjaldarömmum einstakra viðfangsefna.

Engu að síður er gríðarlega mikið um að vera hvort tveggja á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs á komandi árum og miklar breytingar munu eiga sér stað, bæði í umhverfi þeirra og hvernig þær leggja sitt af mörkum til þjóðfélagsins. Fjármálaáætlun og þær áætlanir sem liggja fyrir á báðum málefnasviðum taka ágætlega á því. Mikilvægi landbúnaðar, sjávarútvegs og fiskeldis mun einungis aukast ár frá ári þó með mismunandi hætti sé og verði.

Varðandi landbúnaðinn er grundvallaratriði fyrir þá atvinnustarfsemi að jafnvægi náist í framleiðslunni, að eftirlit með framleiðslu verði styrkt og síðan stuðlað að og ýtt undir nýbreytni og nýjungar. Stærsta áskorunin sem þær atvinnugreinar sem þarna heyra undir glíma við er að við þurfum að aðlaga landbúnaðarkerfið að neysluhegðun nútímans og ekki síður að spá í væntar breytingar í framtíðinni. Landbúnaður á Íslandi mun fyrst og fremst keppa á innanlandsmarkaði og þá við innflutta framleiðslu. Samkeppnisstaða framleiðslu okkar er mjög góð í samanburði við erlenda innflutta framleiðslu. Markmiðið er að stækka markaðshlutdeild okkar á innlendum markaði.

Sjávarútvegur og fiskeldi glíma aftur á móti við allt aðra þætti. Stefnur og straumar á alþjóðlegum vettvangi, varðandi nýtingu og vernd lifandi auðlinda í hafinu, ráða mestu um framgang þeirrar atvinnustarfsemi. Grundvallaratriði á þessum alþjóðlegu mörkuðum er að við höfum vottun og höldum henni varðandi sjálfbærar veiðar og eldi okkar. Þetta er gríðarlega mikilvægt þegar haft er í huga að 98–99% af afla okkar fer á erlenda markaði. Við keppum þar. Varðandi fiskeldi, sem er vaxandi atvinnugrein hér, ætla ég að nefna að á þessu ári má gera ráð fyrir að útflutningsverðmæti fiskeldisins verði u.þ.b. 25–30 milljarðar kr. Á sama tíma er verðmæti alls þorskafla um 70 milljarðar kr. Þetta er því að verða gríðarlega mikil stærð.

Við munum og erum að leggja mikið upp úr verkefnum í matvæla- og fæðuöryggi. Við höfum séð það á þessum síðustu tímum, í tengslum við veiruna, hversu mikilvægt það er okkur á sviði landbúnaðar að stuðla að og tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar. Við höfum verið að vinna mjög ákveðið og einbeitt í þeim efnum á grunni áætlunar sem Alþingi gerði í tengslum við regluverk um innflutning búvara.

Við höfum sömuleiðis lagt áherslu á nýsköpun og vöruþróun í hvort tveggja sjávarútvegi og landbúnaði, m.a. með stofnun hins nýja Matvælasjóðs. Umsóknir í hann voru auglýstar ekki fyrir löngu. Áhuginn var gríðarlegur og 263 umsóknir skiluðu sér. Þær eru núna til umfjöllunar innan sjóðsins og bera með sér að fólk telur að tækifæri til matvælaframleiðslu hér á landi séu mikil. Ég vil sömuleiðis nefna umhverfis- og loftslagsmál. Þar höfum við gert tímamótasamninga við sauðfjárbændur, mjólkurframleiðendur og nautgriparæktina. Ég vil sömuleiðis nefna einföldun regluverks.

Að lokum, þar sem ég sé að tíminn er að renna frá mér, hef ég sett fram áætlun um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni með þeim hætti að gera samninga við stofnanir sem heyra undir ráðuneyti mitt og veita sérstaka fjármuni til að styðja við uppbyggingu þeirra vítt um land. Eins og menn þekkja hefur mikill halli verið á uppbyggingu í opinberum stofnunum sem hafa höfuðstöðvar hér á höfuðborgarsvæðinu.