151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:45]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar hv. þingmaður talar um að í þessari fjármálaáætlun sýni ríkisstjórnin viðhorf sitt til landbúnaðar með þeim hætti að draga úr framlögum minni ég hann á að formaður flokks hans var forsætisráðherra þegar búvörusamningarnir sem unnið er eftir voru gerðir. Þeir gera ráð fyrir 8,6% skerðingu framlaga út samningstímann, sem er til ársins 2026. Menn skulu horfa til þeirrar ábyrgðar sem allir bera á því með hvaða hætti samið var við bændur. Það kom ýmislegt annað til sem olli þessari samningsbundnu lækkun.

Fyrsta verk þessarar ríkisstjórnar var að bæta inn í búvörusamningana 660 millj. kr. á fyrstu mánuðum starfstíma síns. Það er töluverð fjárhæð. Til viðbótar leggur ríkisstjórnin til verulega fjármuni í garðyrkjuna, til niðurgreiðslu á raforku, langþráð verkefni sem ekki var inni í samningnum. Sömuleiðis er verið að verja gríðarlega auknu fé í nýsköpun og þróun í matvælaframleiðslu. Ég hélt að það væri fagnaðarefni. Og ég hefði treyst því að hv. þingmaður tæki undir að þetta væru góð og gild markmið. Það hefur verið pólitísk samstaða, þvert á flokka, um að við ættum að beina áherslum okkar að þeim sviðum sem ég hef verið að nefna hér en ekki að velta okkur bara upp úr því sem miður má fara og leggja út með þeim hætti að einhverjum allt öðrum en okkur sjálfum sé um að kenna. Það er ekkert þannig.

Ég gæti sömuleiðis tekið umræðu um tollkvótana sem um var samið við Evrópusambandið og menn, m.a. úr núverandi flokki hv. þingmanns, gengu fram og fögnuðu framtakinu sem í samningnum birtist, m.a. til hagsbóta fyrir neytendur. Þetta þurfa menn bara að rifja upp fyrir sjálfum sér þegar verið er að keyra það yfir núverandi ríkisstjórn að hún beri ábyrgð á öllu því sem að mati hv. þingmanna kann að hafa farið miður í samningum við bændur.