151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:48]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Einhverra hluta vegna kemur svar. hæstv. ráðherra mér ekki mikið á óvart. En ég ætla að halda áfram í sambandi við landbúnað. Áform um lækkun koma þegar atvinnugreinin er í raun og veru að berjast fyrir lífi sínu. Í raun er gert ráð fyrir að greinin verði sett í viðvarandi nauðvörn. Um leið eru kynntar enn meiri kröfur til greinarinnar, m.a. áform um kolefnisjöfnun landbúnaðar í tengslum við búvörusamninga. Hver á að bera kostnaðinn af því? Miðað við fjármálaáætlunina er ljóst að það eru bændur sjálfir. Það sama á væntanlega við um áformin um að gera íslenskan landbúnað samkeppnishæfan við erlenda framleiðslu. Hvernig geta íslensk fjölskyldubú orðið samkeppnishæf við erlenda verksmiðjuframleiðslu sem rekin er á ódýru vinnuafli og án margra þeirra skilyrða sem íslenskur landbúnaður þarf að uppfylla? Það segir sína sögu að greinin skuli vera komin ofan í skúffu í sjávarútvegsráðuneytinu.

Við þurfum að bregðast við þeirri stöðu sem íslenskur landbúnaður er í, ekki með skerðingum heldur með öflugri sókn í þágu þessarar undirstöðuatvinnugreinar sem er undirstaða byggðar og ýmiss konar atvinnustarfsemi úti um allt land. Nú á þessum fordæmalausu tímum kórónuveiru, þegar óvissa er mikil, er einboðið að leitast við að fæðuöryggi okkar verði stóraukið með stórefldum hvötum til landbúnaðar á því breiða sviði sem sú atvinnugrein nær yfir.