151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þegar ég skoðaði fylgirit með frumvarpi til fjárlaga og áætlanir til ársins 2023 fyrir Fiskistofu verð ég að segja að mér krossbrá. Ég sé að lækkun upphæða á tímabilinu frá 2020–2023 er upp á 16% og framlög til tækja og búnaðar munu samkvæmt þessari áætlun einnig lækka á tímabilinu, um 5%. Ég varð hissa vegna þess að ég sat í starfshópi á vegum ráðuneytis hæstv. ráðherra sem fjallaði einmitt um eftirlitshlutverk Fiskistofu. Við gerðum tillögur um hvernig styrkja mætti hlutverk Fiskistofu og ef eitthvert mark á að taka á þeim tillögum verða þær alveg klárlega ekki til að lækka rekstrarkostnað Fiskistofu.

Ég vil biðja hæstv. ráðherra um að fara yfir rökin fyrir því að tölurnar eru með þeim hætti sem þær birtast í fylgiritinu. Við gerðum tillögur um eftirlit með vigtun, bæði með vigtunarleyfishöfum heima og vigtun á hafnarvog. Við gerðum tillögur um eftirlit með brottkasti og einmitt um tækjabúnað sem þyrfti að kaupa og mætti nota til að gera eftirlitið skilvirkara. Og við fjölluðum um eftirlit með samþjöppun aflaheimilda. Allt þetta á Fiskistofa að sjá um og ég fæ ekki séð að þessi mikilvæga stofnun, sem sannarlega þarf að styrkja, muni styrkjast með því að dregið sé úr rekstrarframlagi til hennar.