151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:56]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar. Ég er nú aðeins rórri eftir það og vænti þess þá að ég sjái annars konar tölur í fjármálaáætluninni sem verður lögð fyrir þingið fyrir 1. apríl nk.

En að öðru máli, herra forseti. Það kemur ekkert annað til greina en að við breytum neysluvenjum okkar ef við ætlum að ná einhverjum árangri í baráttunni gegn hlýnun jarðar. Neysluvenjur taka sem betur fer örum breytingum og ungt fólk gerir háværar kröfur um að við tökum okkur á í baráttunni við loftslagsbreytingar af mannavöldum. Er hæstv. ráðherra ekki sammála því að til þess að eiga einhverja möguleika á því að ná árangri í þessu stærsta sameiginlega verkefni mannkyns þurfi vilja almennings til breytinga og pólitískan vilja og kjark stjórnmálamanna?

Í loftslagsáætlun stjórnvalda, sem kynnt var í júlí, eru markmið um að auka innlenda grænmetisframleiðslu um 25% á næstu þremur árum, styðja við lífræna grænmetisframleiðslu og stefna að því markmiði að íslensk garðyrkja verði kolefnislaus eigi síðar en árið 2040. Það er mikil eftirspurn eftir garðyrkjuafurðum nú og það er brýn þörf fyrir fólk sem hefur verkþekkingu í ræktun og framleiðslu. Sú þörf mun fara vaxandi ef stjórnvöldum er alvara með loftslagsáætlun sinni. Lykillinn að árangri og því að markmið stjórnvalda náist með aukinni grænmetisframleiðslu og skógrækt er að starfsmenntun á sviði umhverfis og garðyrkju styðji við nýsköpun og vöxt. Fagfélög og fyrirtæki í garðyrkju og skógrækt, með formann Bændasamtakanna í fararbroddi, kalla eftir aukinni starfsmenntun og telja að besta lausnin í þeim efnum sé að stofna sérstakan starfsmenntaskóla á framhaldsskólastigi að Reykjum í Ölfusi sem heyrir beint undir menntamálaráðherra en ekki undir Landbúnaðarháskólann.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki ríka þörf á betri starfsmenntun og hvernig honum lítist á þessa hugmynd fagstétta og formanns Bændasamtakanna.