151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:59]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er gott að hv. þingmanni er aðeins rórra og ég fagna því. Í því sambandi vil ég sömuleiðis nefna að tillögur starfshópsins, eins góðar og þær voru, voru ekki kostnaðarmetnar. Við verðum að gera það líka í tengslum við lagafrumvarpið sem ég nefndi að væri í smíðum.

Ég deili alveg sjónarmiðum hv. þingmanns varðandi loftslagsáherslur og mikilvægi þeirra möguleika sem við eigum á því sviði hér, t.d. varðandi grænmetisframleiðslu. Við höfum tekið stöðu á því í samningum við garðyrkjuna. Við höfum sömuleiðis tekið mjög skýra afstöðu með sauðfjárbændum og kúabændum varðandi loftslagsáherslur. Í loftslagsáætlun ríkisstjórnar eru átta atriði sem snúa að mínum málefnasviðum. Í þessum efnum erum við að leggja okkur fram. Ég vil sömuleiðis nefna að í ákvæði í stefnumörkun, sem ríkisstjórnin gerði að minni tillögu, um opinber innkaup matvæla er þetta sett í forgang varðandi val á aðföngum í mötuneyti. Við erum með matvælastefnu í burðarliðnum. Ég nefndi það hér áðan, í andsvari við annan hv. þingmann, að við erum að undirbyggja landbúnaðarstefnu og þar verður tekið á öllum þessum þáttum.

Jú, ég tel að það megi vel ýta undir frekari starfsmenntun. Ég ætla ekki að blanda mér í verkefni menntamálaráðherra sem fer með málefni menntamála og garðyrkjunnar þar með talið. Ég hef verið talsmaður þess alla tíð að styrkja þurfi málefni Landbúnaðarháskóla Íslands vegna þess að ég tel að á mörgum sviðum vanti landbúnaðinn málsvara í menntakerfinu í umræðunni um hagsmunamál landbúnaðarins og getu og möguleika hans til að leggja sitt af mörkum til þjóðfélagsins. Það tel ég að við gerum best með því að Landbúnaðarháskólinn geti tekið sér öfluga stöðu í slíkri umræðu.