151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[21:01]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að lýsa ánægju minni með markmið og mælikvarða, sem eru undir í landbúnaðarkaflanum hjá sjávarútvegsráðherra, sem snúa að loftslagsvænni landbúnaði, matvælaöryggi, auknu frelsi til fjölbreyttari framleiðslu og hvata til nýsköpunar og svo einfaldari stjórnsýslu og auknum rafrænum samskiptum. Ég er líka ánægð með það sem við hæstv. ráðherra höfum rætt áður um hér, þetta tilraunaverkefni sem er hafið með því að auðvelda sauðfjárbændum að slátra sauðfé sjálfir heima á bænum og markaðssetja það til neytenda. Mér finnst það gott og eins þessi mikla áhersla sem við leggjum á grænmetisræktina sem mikið hefur verið kallað eftir.

Það hefur farið fram margs konar stefnumótun, t.d. gerð matvælastefnu og stefnu um opinber innkaup sem á að stuðla að minnkun kolefnisspors við framleiðslu og flutning og stuðla að því að neytendur fái betri upplýsingar um uppruna matvæla. Nú er stefnt að því, eins og hér hefur komið fram, að gera landbúnaðarstefnu sem mér skilst að eigi að líta dagsins ljós næsta vor. Það var lögð fram aðgerðaáætlun í 17 liðum um að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu. Mig langar að spyrja ráðherra hvernig gengið hefur að innleiða þessa stefnu og aðgerðaáætlanir fram til þessa.

Síðan langar mig að spyrja ráðherrann um Matvælasjóð, hvar það er vistað núna sem kannski tilheyrir ekki matvælaframleiðslu og var áður í Framleiðnisjóði.

Mig langar líka að spyrja ráðherrann um hvað er fram undan í tollamálum. Það hefur dálítið verið rætt undanfarið í fjölmiðlum og hér í þingsal um svik og pretti sem kunna að vera í því hvernig hlutir eru tollaðir, hvort kjötið er með beini eða án, því við vitum auðvitað að munurinn getur verið mikill. Hver eru næstu skref í þeim málum? Ég ætla að láta þetta duga í fyrri umferð.