151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[21:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þau atriði sem hún kemur inn á. Ég hef ekki áður nefnt eða komið inn á verkefni sem kallað er heimaslátrun. Það er gríðarlega mikill áhugi fyrir því hjá bændum og við erum að vinna í því með þeim að koma því á. Ég reikna með því að tekin verði ákveðin skref í því nú í haust. Við færumst nær því að þetta verði að veruleika. Ég tel einboðið að svara þeim áhuga sem þarna er og veit ekki annað en að samstarfið gangi vel.

Viðbragðsáætlun sem tengist breytingum á innflutningi á kjöti gengur mætavel. Flest verkefnin þar eru komin í farveg, ef ekki öll, og mörg eru orðin að veruleika. Stærsta verkefnið og sem mesta áskorunin hefur verið í hefur gengið vel, þ.e. varnir gegn sýklalyfjaónæmi, sem ég og heilbrigðisráðherra eigum mjög gott samstarf um að byggja upp og höfum stigið stór skref þar.

Matvælasjóður er vistaður í ráðuneytinu. Þetta er sameining tveggja sjóða, Framleiðnisjóðs og rannsóknasjóðs um aukið virði sjávarafurða, AVS-sjóðsins. Síðan kemur þessi viðbót inn núna, 500 milljónir á þessu ári og síðan 250 milljónir inn í pakkann. Þetta er um 650 millj. kr. sjóður og áhuginn á honum er mikill og fullt af metnaðarfullum og góðum verkefnum.

Um tollamálin er það að segja að þau eru vistuð í fjármálaráðuneytinu. Spurningum varðandi þau er hins vegar ætíð beint að landbúnaðarráðuneyti sem fer ekki með forræði mála. En ég veit að fjármálaráðherra hefur sett í gang vinnu við það að fara í gegnum ýmis atriði sem hefur verið beint til ríkisins varðandi þetta og veit ég ekki betur en að það sé bara í góðu fari.