151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[21:05]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það var eitt sem mér fannst standa út af. Ég var að lesa um Matvælasjóð og er ánægjulegt að heyra hve mikil og góð ásókn er í hann en hann er eingöngu matvælatengdur. Framleiðnisjóður studdi við eitt og annað sem var kannski ekki beinlínis matvælatengt og það er það sem ég velti fyrir mér. Verður það út undan? Hvar lendir það? Er það í einhverjum öðrum sjóðum eða hvað?

Það er gott að heyra að það gengur vel að innleiða þessar aðgerðaáætlanir og stefnur sem við vorum að ræða um. Þá ætla ég að halda áfram að spyrja með aðgerðirnar: Hvernig gengur að innleiða þær? Svo spyr ég um búvörusamningana sem hafa verið gerðir og snúa að kolefnishlutleysi, í ljósi þess að bara á næsta ári á losun að dragast saman úr 624 kílótonnum í 585. Svo langar mig líka að spyrja ráðherrann í því sambandi hvort hann sjái fyrir sér að hægt sé að auka stafrænar lausnir, sem er eitt af markmiðunum sem kemur fram í fjármálaáætluninni, þ.e. að auka stafrænar lausnir í eftirliti MAST og auka þannig gæði þjónustunnar og vonandi draga úr kostnaði.

Ég ætla nú samt að segja eins og fleiri hérna, af því að ég eins og aðrir hef auðvitað fengið að heyra það frá bændum, að fjármagnið í fjármálaáætlun vegna rammasamnings um búvörurnar hefði alveg örugglega mátt vera meira eins og svo margt annað.

Að lokum langar mig að spyrja hvort ráðherrann telji ekki vera sóknarfæri í að styðja enn frekar við kornrækt og draga þannig úr þörfinni á innfluttu fóðri og auka þar með matvælaöryggi og styðja enn frekar við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins sem gegnir, eins og við vitum, stóru hlutverki með ráðgjöf sinni við að draga úr losun og skoða m.a. rannsóknir á mögulegum nýjum tegundum, t.d. til fóðurframleiðslu.