151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[21:08]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta voru margar spurningar. Ég veit ekki hvernig þingflokksfundir hjá VG ganga, ef þeir geta svarað öllu á svona skömmum tíma þá er það afrek. Hv. þingmaður spurði hvort Matvælasjóður væri eingöngu matvælatengdur, hvort annað sem ekki er matvælatengt yrði út undan. Það þarf ekki að vera. Hann er fjórskiptur þessi sjóður og örugglega gæti sumt sem áður var inni í öðrum sjóðum eða styrkt hugsanlega farið þarna undir. En ég bendi hins vegar á að megintilgangur t.d. laga um Framleiðnisjóð landbúnaðarins var að efla og stuðla að aukinni og betri matvælaframleiðslu, nýsköpun á því sviði. Þetta hefur með einhverjum hætti færst yfir á aðra þætti en ég bendi þá á að það er fullt af öðrum sjóðum sem hægt væri að sækja í. Ríkisstjórnin er að leggja gríðarlega aukna fjármuni í aðra sjóði til uppbyggingar atvinnulífs og ég held að menn geti í þeim efnum skoðað það sem þar býðst.

Jú, ég tek undir það að loftslagsmálin eru mikilvæg og þau eru í búvörusamningunum. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig það stendur. Við í landbúnaðarráðuneytinu erum í góðu samstarfi við umhverfisráðuneytið, við bændur, við RML og fleiri aðila. Markmiðið er að sauðfjárræktin og nautgriparæktin verði orðnar kolefnishlutlausar 2040, að því er unnið og ég veit ekki annað en að menn horfi einbeittir til þess máls.

Við erum að skoða stafrænar lausnir, ekki bara hjá MAST heldur víðar í okkar kerfi. Fjármunirnir í kerfinu mega vissulega vera meiri. Þetta er samningur sem gildir til 2026. Ég þigg það alveg ef fjárlaganefnd veit eitthvað af lausum fjármunum, það skal ekki standa á okkur að þiggja þá. En hingað til hefur það ekki verið og forsendurnar fyrir því að samningurinn var gerður svona á sínum tíma eru einhverjar og að því leyti kann það m.a. að skýrast af þeirri breytingu sem gerð var á fjármögnun og snertir RML. Gerðar voru einhverjar breytingar á þessu á sínum tíma. (Forseti hringir.) RML er fyrirtæki sem Bændasamtökin eiga og reka en við höfum lagt upp með það að styðja við þá starfsemi sem þar er.