151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[21:14]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Í aðsendri grein Eyþórs Eðvarðsson í Kjarnanum kemur fram gagnrýni á aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Hægt er að bæta áætlunina umtalsvert og myndi tvennt skipta miklu máli:

1. Búa til kerfi sem fær landeigendur til að endurheimta framræst eða raskað votlendi með því að stífla skurðina eða loka þeim alveg. Fá þannig vatnið aftur í jarðveginn svo súrefnið fari úr honum.

2. Banna strax sauðfjárbeit á þeim svæðum þar sem gróður þolir ekki beit og fara í markvissar aðgerðir til að bæta gróðurþekjuna.

Með góðri samvinnu við landeigendur og bændur er hægt að leysa þetta hratt og vel. Hið opinbera verður að koma að því máli. Betur má ef duga skal.“

Ég tek undir með greinarhöfundi og vil því spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann þetta ekki vera aðgerðir sem liggur í augum uppi að ættu að vera í þessari áætlun og ráðherra ætti að stefna að?

Svo langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að við erum að tala um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í þessu samhengi, út í ákveðið misræmi sem ég sé í aðgerðaáætluninni sem var gefin út í júní 2020, fyrir mjög stuttu síðan, og svo þessari fjármálaáætlun. Samkvæmt aðgerðaáætluninni er áætlað að samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda verði minnkaður niður í 575.000 tonn CO2-ígilda árið 2030 en í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að losunin fari niður í 550.000 tonn fyrir árið 2025. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Er fjármálaáætlun svona miklu bjartsýnni og metnaðarfyllri en þessi nýtilkynnta áætlun, eru mistök á ferð eða hvað skýrir þennan stóra mismun í áætlununum?