151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[21:17]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst um það sem hv. þingmaður nefnir varðandi framræslu lands og skurði. Umhverfisráðuneytið er að vinna í þeim efnum og ég held að velflest verkefni sem þar eru undir séu komin í farveg. Ég þekki ekki nákvæma stöðu á því þar sem þetta verk er ekki inni á borði míns ráðuneytis, þ.e. framræsla landsins og vinna við að, hvað á ég að segja, koma því ofan í skurði aftur.

Þegar hitt atriðið er nefnt, sem snýr að banni við sauðfjárrækt á landi þar sem beitarþol er lítið, hvort ekki sé tímabært að fara í það að mati Eyþórs, þá vil ég bara nefna að í gangi er verkefni sem heitir GróLind, það er fjallað um það á bls. 256 í skýringunum við áætlunina, sem hefur það að markmiði — staðan á því var kynnt fyrir tveimur til þremur mánuðum — að kortleggja einfaldlega beitarþol á landinu öllu. Það er gríðarlega vel unnið verkefni í samstarfi allra aðila sem þessi mál snerta og menn binda vonir við að á grunni verkefnisins verði hægt að stýra beit í landinu á allt annan veg en hingað til hefur verið gert. Þá væri hægt að opna einhver svæði og loka öðrum. Ég tel þetta verk til mikillar fyrirmyndar og við höfum fjármagnað það til fulls.

Ég kann því miður ekki skýringar á því misræmi sem hv. þingmaður nefnir varðandi losunina. Ég get reynt að finna á því einhverjar skýringar en hef þær ekki handbærar.