151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[21:23]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þó að það hafi kannski ekki verið frjálshyggjumenn sem kynntu þennan samning þá er mjög mikilvægt að taka hann upp á þessum tíma. Ég minni bara á að hann var gerður til þess að íslenskur landbúnaður gæti nýtt þau tækifæri og flutt út vörur og þá kannski í þágu framleiðenda matvæla, bænda. En það hefur hins vegar ekki verið vilji til þess að flytja út íslenskar vörur vegna tollmúra sem eru í Evrópu þannig að við erum að gera samninga við lönd sem reisa sína tollmúra og ég held að það sé alveg ástæða til að virða það hér á Íslandi líka.

Mig langar til að snúa mér aðeins að sjávarútvegsmálum. Það er ánægjulegt að sjá þær áherslur sem finna má í frumvarpi til fjárlaga hvað varðar sjávarútveg. Bæta skal eftirlit með fiskveiðum og innleiðing er á tillögum starfshóps um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni og einnig á að auka fjármagn í Matvælasjóð sem styrkir áfram nýsköpun og þróunarverkefni. Þá eru áætlaðir fjármunir í nýjan fiskeldissjóð sem ætlaður er til að styrkja uppbyggingu innviða á þeim stöðum þar sem fiskeldi er stundað og þar með að styrkja þau samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum þar sem fiskeldi er stundað. Þessi uppbygging er þegar hafin og standa sveitarfélögin sjálf fyrir þeirri uppbyggingu. Í þeirri efnahagslægð sem við erum í núna er fiskeldið ein af meginstoðum atvinnulífsins til að ná til lands aftur. Hér er um verðmæt störf að ræða, bæði fyrir konur og karla, og miklar gjaldeyristekjur.

Í fyrra birtust drög að reglugerð í samráðsgátt um fiskeldissjóðinn. Samkvæmt lögum ætti að skipa stjórn sjóðsins og koma honum á laggirnar. Því langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvenær vænta megi að fiskeldissjóðurinn taki til starfa og hvað vanti upp á til að sú vinna fari af stað. Hvar er hún stödd?