151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[21:27]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það hefur verið fróðlegt að hlusta á umræðuna í dag og eitt og annað hefur verið dregið fram, m.a. pólitískar áherslur stjórnarflokkanna. Eftir síðasta andsvar er alveg ljóst að ekki er að vænta aukins frelsis í þeirri mikilvægu atvinnugrein sem landbúnaðurinn er. Þá hugsa ég ekki síst um frelsi fyrir bændur, frelsi til að ráða sér sjálfir. Menn geta kallað það hvaða nafni sem er, hvort sem það heitir frjálshyggja eða róttæk frjálslyndismennska eða hvað það er, en ég held að það sé mjög mikilvægt að bændur fái tækifæri til að bera ábyrgð á eigin lífi og ákveða sjálfir hvernig þeir haga ræktun sinni. Ég held að í því tilfelli skipti mjög miklu máli að hafa mjög mikla græna hvata. Við í Viðreisn höfum margítrekað að við viljum, ef eitthvað er, frekar auka framlög til landbúnaðarins svo lengi sem við viðhöfum græna hvata, grænar lausnir, en líka að við förum að huga að stækkun markaða. Ég held að það sé ein af bestu leiðunum fyrir okkur, til þess að styðja við aukna matvælaframleiðslu, að við stækkum markaðinn. Það þýðir að við þurfum að leita út á við, ekki bara inn á við. Og við þurfum náttúrlega að gera ýmislegt fleira.

Það er eitt sem mig langar sérstaklega að spyrja hæstv. ráðherra að. Komið hefur fram í alþjóðlegri skýrslu að neytendur á Íslandi, neytendur hér innan lands, borgi hvað hæst verð fyrir landbúnaðarvörur. Ég held að það sé ekki endilega ósætti um það meðal íslensks almennings að við borgum ágætlega fyrir landbúnaðarvörur. Það er hins vegar verra, og það er ekki sátt um það meðal almennings, að íslenskir bændur skuli vera með hvað slökustu kjörin innan OECD.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera, vegna þess að ég sé ekki þess merki í fjármálaáætluninni, hvergi, að bæta eigi kjör bænda, sama hvort það er í garðyrkju, nautgriparækt eða sauðfjárrækt, eða stuðla að því að neytendur fái aðeins betra verð en nú er í boði?