151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[21:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er algjört lykilatriði að styðja við íslenska landbúnaðarframleiðslu. Ég spyr: Í þágu hvers er kerfi sem heldur bændum niðri þegar kemur að kjörum þeirra? Þá er Sjálfstæðisflokkurinn bara byrjaður að skilgreina frelsið upp á nýtt ef frelsið á að leiða til þess að íslenskir bændur hafi slökustu kjörin í alþjóðlegum samanburði. Það er vont kerfi og þannig kerfi vil ég bæta með það fyrir augum að við eigum að efla íslenska landbúnaðarframleiðslu.

En síðan er hitt, og kem ég þá að hinni spurningunni minni sem tengist sjávarútveginum: Nú stendur yfir endurskoðun á stjórnarskránni, m.a. varðandi auðlindaákvæðið. Auðlindaákvæðið hefur verið lagt fram af hálfu ríkisstjórnarinnar og þar með talið formanni Sjálfstæðisflokksins. Það er að mínu viti alveg vitavonlaust auðlindaákvæði sem treystir ekki rétt þjóðarinnar, sem treystir ekki sameign þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að með því að setja fram þetta auðlindaákvæði verði áfram ósátt í samfélaginu um þessa gríðarlega mikilvægu atvinnugrein. Bæði innan greinar sem utan er mikilvægt að við náum sátt um hana, en á meðan við erum ekki með tímabundna samninga inn í auðlindaákvæðið óttast ég að ósættið verði áfram. Við sjáum það líka, og við höfum reyndar upplifað það á þessu þingi, á þessu kjörtímabili, að stjórnarflokkarnir hafa ítrekað fellt tillögur okkar í Viðreisn um tímabundna samninga. Tímabundnir samningar eru til að treysta sameign íslensku þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki þungar áhyggjur af því að við séum að fara að ræða hér auðlindaákvæði sem ýfir enn frekar upp ósætti meðal þjóðarinnar í stað þess að setja niður áralangar deilur, setja niður deilur á þann hátt að það væri hugsanlega í samræmi við það frumvarp sem þáverandi ráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, setti fram á sínum tíma sem fól einmitt í sér tímabundna samninga. Allir flokkar á Alþingi voru sammála þessu nema einn flokkur. Það var Sjálfstæðisflokkurinn.