151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[21:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar sagt er að Sjálfstæðisflokkurinn hafi einn flokka verið á móti tímabundnum samningum er það ekki alls kostar rétt. Ég ætla að minna hv. þingmann á að við sátum í ríkisstjórn saman. Og í stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar voru ákvæði um að taka upp umræður, viðræður og vinnu með tímabundna samninga. (ÞKG: Það kom í ljós að það var einn flokkur á móti.) Það var ákvæði í stjórnarsáttmála. (Gripið fram í.) Svo var það á ábyrgð annarra að sjá um framkvæmd þeirra mála. Það kann vel að vera að menn kunni einhverjar skýringar á því hvers vegna menn sigldu í strand með það. Ég ætla ekki að fara út í það hér í umræðu um fjármálaáætlun.

Varðandi það að halda niðri kjörum bænda, að það sé stefna og vilji Sjálfstæðisflokksins að halda því til streitu: Hvaða umræða er það eiginlega? Hvernig dettur hv. þingmanni í hug að eigna tilteknum stjórnmálaflokki það að vilja halda niðri kjörum fólks? (ÞKG: Breyttu þá …) Það er ekki sanngjörn nálgun á málið. (ÞKG: Breyttu þá …) Það er alls ekki sanngjörn nálgun á málið, virðulegur forseti.

(Forseti (WÞÞ): Hæstv. ráðherra hefur orðið.)

Og það er ekki í þágu neins að ræða þannig um starfskjör í landbúnaði að ætla að það sé vilji einhverra stjórnmálaafla að halda niðri kjörum tiltekinna stétta. Ég bið þá hv. þingmann líka að ræða það með hvaða hætti Sjálfstæðisflokkurinn í þessu tilfelli, fyrst hún gerir hann sérstaklega að umræðuefni, leggur sig fram um að halda niðri kjörum fólks. Þetta er ómálefnaleg nálgun á málið. (ÞKG: Kerfið segir það. Skýrslur segja það.)