151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[21:36]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um málefni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ekkert kemur fram í umfjöllun um málefnasvið 13, sjávarútveg, um þann vanda sem felst í núverandi strandveiðikerfi. Við sjáum það kannski best í haust hversu ósveigjanlegt kerfið er. Nóg er eftir að veiða, en ráðherra segist ekki mega heimila fiskveiðar. Á í alvöru ekkert að gera til að koma í veg fyrir svona ástand að ári liðnu, t.d. að auka frjálsar strandveiðar, ef það hentar? Það er mjög gott fyrir byggðir landsins.

Í seinni hlutanum vil ég fara út í laxeldið, laxalúsarplágu og mengun frá laxeldi. Náttúrulegir stofnar laxa og silunga eiga á hættu að spillast varanlega vegna þessa. Því spyr ég: Hverjar eru framtíðaráætlanir um það á viðkvæmum stöðum, að setja og gera að skyldu að fiskeldi verði sett í land?

Hitt sem mig langar líka að vita er í sambandi við greiðslur. Nú þarf að greiða töluvert fyrir eldisleyfi í Noregi. Stendur eitthvað álíka til hér, að þeir sem vilja fara út í laxeldi greiði almennilega fyrir það á svipaðan hátt og gert er í Noregi? Hvaða ráðstafanir eru gerðar til að sjá til þess að mengun frá eldi valdi ekki tjóni á íslenskri náttúru?