151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[21:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar hv. þingmaður ræðir um að það sé vandamál í núverandi strandveiðikerfi, þ.e. að þar sem nóg sé eftir til að veiða, af hverju megi þá ekki bara auka strandveiðar, bendir til þess að hv. þingmaður hafi ekki nokkurn einasta skilning á kerfinu. Það er sjálfbærni í sjávarútvegi á Íslandi sem byggir á því að Hafrannsóknastofnun leggur til ákveðinn heildarafla. Þessi heildarafli er ákveðinn af sjávarútvegsráðherra og það hefur sem betur fer verið gert í langan tíma á grundvelli tillögu Hafrannsóknastofnunar. Þar eru bestu fáanlegu upplýsingar. Ég vænti þess að ég og hv. þingmaður séum sammála um að viðhafa það verklag. Af þessum heildarafla er tekin ákveðin prósenta í byggðapotta, 5,3%. Þar undir eru strandveiðarnar og það er ákveðinn tonnafjöldi. Þegar komið er að mörkum hans er ekkert meira til ráðstöfunar í þeim potti. Með sama hætti er það í aflamarkinu, að þegar menn eru búnir að veiða það sem þar er skammtað er ekkert meira þar til ráðstöfunar. Þannig er kerfið uppbyggt. Ég bið hv. þingmann að horfa til þess að þannig er þessum heimildum ráðstafað á hverju ári.

Varðandi laxeldið erum við að taka upp ákveðin líkön. Við styðjumst við vísindalega ráðgjöf og rannsóknir og reynum sem mest að forðast mengun, erfðablöndun o.s.frv. Eldi á landi hefur komið til umræðu. En við erum sömuleiðis að vinna á grundvelli leyfa sem þegar hefur verið gengið frá og nýja kerfið gerir ráð fyrir því. Gjaldtaka hófst núna á þessu ári. Ný leyfi sem koma inn verða boðin upp. Það er sama kerfi og er í Noregi. Við erum því að fikra okkur í átt til þess að ríkissjóður fái tekjur til sín af þessari nýju öflugu atvinnugrein sem hún á eftir að verða.