151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[21:40]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þetta veiðikerfi, strandveiðikerfið og annað, er allt mannanna verk og það er ekki greypt í steintöflu að ekki megi hagga því. Við erum í þannig ástandi núna, Covid-ástandi, að við þurfum að auka vinnu og þarna væri hægt að bæta í án þess að setja alls konar fiskstofna í stórhættu. Við erum með kerfi sem við höfum búið til og það hlýtur að vera sveigjanleiki í því.

Síðan svarar ráðherra því ekki hvernig hann ætlar að tryggja að náttúran fái að njóta vafans varðandi náttúrulega stofna laxa og silunga út af laxalús og annarri mengun sem af eldinu hlýst.

Ég vil spyrja að lokum í sambandi við grænmetisbændur. Hvað er verið að gera til að auka virkilega framleiðslu hjá grænmetisbændum? Ég hef tvisvar lent í því nýlega í Bónus að þegar ég bið um agúrku er hún ekki til vegna þess að birgjar geta ekki útvegað hana. Ég spyr því: Hvað er í gangi, ef það er vandamál að fá hér agúrkur? Ég spyr einnig: Er virkilega verið að hjálpa grænmetisbændum til að auka framleiðsluna með styrkjum eða ívilnunum? Vegna þess að það segir sig sjálft að matvælaöryggi og sjálfbærni hlýtur að vera eitthvað sem við stefnum að. Og ekki veitir af, því að eins og komið hefur fram er ákveðinn hluti bænda algjör láglaunastétt, lepur dauðann úr skel. Eitthvað þarf að gera. Það er ömurlegt að við höfum hörkuduglegt fólk sem vill gera hlutina vel en getur það ekki vegna þess að kerfið er svo ósveigjanlegt. Ekkert er hægt að gera af því að kerfið segir það.