151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[21:42]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Kerfin öll eru mannanna verk, það er alveg hárrétt. Þegar hv. þingmaður segir: Það hlýtur að vera hægt að bæta við heimildum. Já, það er örugglega hægt. En ég hef ekki þá þekkingu til að bera að fullyrða að við setjum ekki stofna í hættu með því. Ég get þess vegna spurt hv. þingmann hvort hann vilji bæta við 1.000 tonnum eða 10.000 tonnum eða hvað, það fer örugglega eftir áherslum manna sitt á hvað en byggir ekki á neinni vísindalegri ráðgjöf. Grundvallaratriði fyrir vottun á afurðum okkar erlendis er að við byggjum ákvarðanir okkar með einhverjum hætti á vísindalegri ráðgjöf og rannsóknum, en ekki hvernig pólitíkusum dettur í hug að ákveða aflamark hverju sinni bara eftir behag. Það gengur ekki þannig. (GIK: … sveigjanleikinn í kerfinu.) Sveigjanleikinn í kerfinu hefur verið sá að við höfum nýtt ónýttar heimildir í pottinum, m.a. til þess að færa inn í strandveiðarnar, úr línuívilnun o.s.frv.

Hvernig ætlum við að tryggja að náttúran njóti vafans? Við erum sennilega fyrsta þjóðin sem tekið hefur upp áhættumat erfðablöndunar til að reyna að tryggja ekki verði erfðablöndun villtra stofna við náttúrulega stofna. Það er þó alla vega tæki sem við erum að reyna að nýta. Einnig hefur verið unnið að skipulagi haf- og strandsvæða. Við höfum sett á laggirnar áhættumatsnefnd. Við höfum skipað nefnd sérfróðra, hlutlægra vísindamanna sem eiga að rýna allt sem vísindamennirnir á Hafró eru að gera o.s.frv. Við erum að reyna að leggja okkur fram.

Varðandi grænmetisbændur og hvernig auka á framleiðslu. Ég ætla bara að nefna það dæmi sem ég nefndi. Ég fór nýlega í heimsókn í Reykholt í Biskupstungum. Þar eru uppi áform um að stórauka framleiðslu. Þar eru gríðarlegar fjárfestingar í gangi í gúrkum, tómötum og blómum. Bændur þar eru bjartsýnir. Eðlilega hafa þeir stundum áhyggjur af starfsumhverfi sínu o.s.frv. og það er fullkomlega eðlilegt. En vilji manna í kjölfar nýja samningsins um garðyrkjuna, þar sem veittur er aukinn stuðningur, hvetur menn til fjárfestinga og væntanlega verður framleiðsla aukin.