Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Undanfarið höfum við verið að ræða fjárlög og fjármálaáætlun. Það hafa komið fram stórfurðulegar upplýsingar. Í viðtali við fjármálaráðherra fullyrti hann að verðbólguspá og eitthvert furðulegt launaskrið ætti að valda því að öryrkjar fengju 3,6% hækkun um næstu áramót. Þetta væri launaskriðsspá fyrir næsta ár. En í fjármálaáætlun hans stendur skýrum stöfum: Launaskrið næsta árs er 5,2%. Hvernig fær hann þá út 3,6%?

Ef við horfum í baksýnisspegilinn sjáum við að á síðasta ári hefði átt að hækka kjör eldri borgara og öryrkja um 7% eða helmingi meira en þeir fengu. Það sem er merkilegast er að hverjar einustu tekjur, sama hvaðan þær koma, ef það eru tekjur á annað borð, skerðast hjá öryrkjum og eldri borgurum.

Ég spurði ráðherra t.d. í sambandi við arf, hvers vegna í ósköpunum við á þingi, ef við fengjum arf, mættum eiga hann óskertan en ef öryrkjar fá arf verða þeir að lifa af honum í heilt ár. Ráðherra sagði: Einhver verður að standa undir þessu. Einhvers staðar verðum við að fá tekjurnar. Þarna kemur sannleikurinn fram. Tekjurnar eru teknar af þeim sem síst skyldi. Það er verið að láta það fólk sem lifir í þessu kerfi halda uppi kerfinu upp með skelfilegum, keðjuverkandi skerðingum. Það merkilegasta við þetta allt saman er að félagsmálaráðherra segir: Það er bara hækkað samkvæmt vísitölu, en við höfum ekki heyrt í Vinstri grænum. Þeir segja okkur bara og við ykkur hin: Þið þurfið bara bíða lengur.