Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:53]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum núna um málefni dómsmálaráðherra. Mig langar að fá upplýsingar hjá henni um það að enn og aftur þarf að fresta þyrlukaupum og í staðinn er fyrirhugað að leigja þyrlur áfram auk þess að leigja eina nýja þyrlu í viðbót í staðinn fyrir TF-LÍF. Er leiguverð virkilega svo hagstætt að það borgi sig að leigja þyrlu í stað þess að kaupa?

Í þessu sambandi er rétt að minna á að vaxtakjör ríkissjóðs er góð um þessar mundir þrátt fyrir allt og því hefði maður haldið að kaupin myndu borga sig. Það hefur staðið til í fjölda ára að kaupa nýja þyrlu en af einhverjum ástæðum þarf alltaf að fresta verkefninu. Ríkisstjórninni tókst að fresta því í góðærinu og nú á að fresta því í Covid, sem ég tel rangt vegna þess að bæði hlýtur verð á þyrlum að vera hagkvæmt og lánakjör.

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra um vegabréf. Hvers vegna tökum við ekki upp vegabréfaeftirlit á landamærunum? Hvers vegna í ósköpunum er ekki þannig gengið frá málum á landamærunum að við þurfum að sýna vegabréf og að stjórnvöld viti nákvæmlega hverjir koma til landsins? Það er ekki nema innan við ár síðan ég var að fara frá Danmörku til Þýskalands og þurfti að sýna vegabréf. Þess vegna er óskiljanlegt fyrirbrigði að það skuli vera hægt að koma hérna inn í landið án þess að sýna vegabréf, sérstaklega þegar talað er um að það sé aukning í alþjóðlegri brotastarfsemi. Þá hlýtur að vera sjálfsagður hlutur að vita nákvæmlega hverjir koma til landsins og hægt að fylgjast með því.