Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:57]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin en ég vil benda á að Danir eru líka innan Schengen og þeir tóku upp vegabréfaeftirlit og Svíar líka. Það ætti því ekki að vera mikið vandamál fyrir okkur.

Eitt sem ég fór í gegnum í sambandi við framtíðaráætlanir en finn hvergi og ég finn hvergi í málaskrá hæstv. ráðherra og ég spyr hvort það hafi dagað uppi hjá henni og það er að breyta fjárhæðum í skaðabótalögum. Það er verið að brjóta illa á fólki sem lendir í tjóni vegna slysa, hvort sem það eru umferðarslys eða önnur slys, til hagsbóta fyrir tryggingafélögin.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvers vegna í ósköpunum hefur þetta ekki verið leiðrétt? Hvenær ætlar hún að leiðrétta þetta? Er það ekki í hennar framtíðaráformum? Hvernig getur hún réttlætt að það getur munað allt að 3 milljónum í árstekjur sem þeir sem lenda í tjóni eru að tapa eins og staðan er núna? Ekki er þetta kostnaðarauki fyrir ríkissjóð þannig að það ætti ekki að flækja málin á neinn hátt að fara í þessar breytingar strax. Ég tel að samkvæmt lögum eigi þetta að vera rétt. Það er miðað við launatekjur. Ef henni þóknast þá gæti hún í sjálfu sér stutt mál Flokks fólksins, sem við höfum lagt fram og er komið inn í þingið, um breytingar í þessa veru. Það væri hægt að láta það gilda og ef ríkisstjórnin sæi til þess að það yrði samþykkt þá væru þessar breytingar komnar í framkvæmd.