151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:22]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra kom inn á mikilvægi þess að huga vel að urðunarmálum og koma í veg fyrir smitsjúkdóma. Þann 20. apríl sl. gaf ESA út rökstutt álit um að Ísland uppfylli ekki skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum varðandi urðun tiltekinna afurða úr dýraríkinu en samkvæmt reglum EES er Íslandi skylt að sjá til þess að aukaafurðum dýra sem ekki eru ætlaðar til manneldis sé fargað með aðferðum sem fyrirbyggja mögulega uppsprettu sjúkdóma. Svo virðist sem íslensk stjórnvöld hafi ekki gert viðunandi ráðstafanir og ekki sé til staðar fullnægjandi kerfi. Nú getur ESA vísað málinu til EFTA-dómstólsins og það kemur því nokkuð á óvart að ekki virðist vera gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi að bregðast við þeim úrskurði. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hver er ástæðan fyrir því að þetta hefur ekki verið lagfært? Er búið að meta kostnaðinn við að uppfylla þessar reglur? Sömuleiðis vek ég athygli á mögulegum kostnaði fyrir Ísland ef ESA höfðar samningsbrotamál. Hvað hyggst hæstv. umhverfisráðherra gera til að bregðast við þessari stöðu?

Herra forseti. Í kafla 17.1 kemur fram að land á Íslandi beri mjög víða merki hnignunar vistkerfa, m.a. vegna ágangs ferðamanna. Sömuleiðis er talað um mikilvægi uppgræðslu lands o.s.frv. Það kemur þó á óvart að í því samhengi er ekkert rætt um að skoða aðra þætti eins og beit á landi. Er þetta ekki eitthvað sem ráðherra telur að þurfi að skoða líka?

Þá fagna ég, herra forseti, eflingu landvörslu og bættrar þjónustu á náttúruverndarsvæðum. Mig undrar þó að ekki sé betur stutt við það markmið með fjármunum, en mikið tekjufall er ætlað í þjóðgörðunum. Það skýrist náttúrlega að einhverju leyti af fækkun ferðamanna en það þýðir samt að það verður samdráttur í þjónustu í þjóðgörðunum. Einnig er samdráttur í framlögum til Umhverfisstofnunar. Ég spyr því, hvernig er þetta efling?