151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:07]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða við umhverfis- og auðlindaráðherra. Því miður erum við Íslendingar gífurlegir umhverfissóðar. Það er eiginlega til háborinnar skammar hversu miklir umhverfissóðar við erum. Til að kóróna allt seljum við líka hreina orku til þeirra sem eru að mörgu leyti enn þá meiri umhverfissóðar en við til að þeir fái vottun um að þeir séu í lagi þó að þeir séu langt frá því vegna þess að þeir eru kannski að brenna kol eða kjarnorku. Það er óskiljanlegt að við skulum enn vera í þeirri aðstöðu að selja hreinu orkuna okkar úr landi með því móti sem við gerum.

Undanfarin ár hef ég verið að spá í og er enn að velta fyrir mér: Nú brennur Kalifornía og fleiri staðir og það virðist enginn læra af reynslunni. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því? Hver er staðan með brunahólf? Við erum að tala um gosbelti, við erum að tala um belti þar sem eru snjóflóð. En það virðist engum detta í hug enn þá að búa til brunahólf. Og ég bara vona heitt og innilega að hæstv. umhverfisráðherra sé með plan um það að búa þau til, að sjá til þess að engin hætta sé á því, ef það kviknar í, bara í Skorradalnum, Hallormsstaðaskógi eða einhvers staðar, að allt fari. Það er auðvitað alveg fáránlegt að halda að það geti ekki kviknað í skóginum hjá okkur. Timbur brennur jafn vel á Íslandi og erlendis. Við erum líka í hættu vegna sinu og annars sem getur á ákveðnum tímum verið mjög hættulegt.