Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:31]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Frú forseti. Það er flestum ljóst að bregðast þarf við aukinni sjúkdómabyrði vegna langvinnra sjúkdóma og áhættuþátta vegna lífsstílstengdra sjúkdóma sem og kröfu um öruggari og aðgengilegri heilbrigðisþjónustu. Staðan er sú að aukin þörf er fyrir ýmis inngrip, svo sem liðskiptaaðgerðir. Landlæknisembættið hefur sett fram ákveðin viðmið um hversu boðlegur biðtíminn sé. Embætti landlæknis segir biðtímann ekki eiga að vera lengri en 90 daga. En staðan er núna, og hefur reyndar verið um langt skeið, að biðtíminn hefur verið mun lengri sem gerir það að verkum að veikt fólk getur ekki verið félagslega virkt eða sinnt vinnu sinni og skyldum.

Um daginn talaði fjármálaráðherra um blóðuga sóun í kerfinu og ein blóðugasta sóunin hlýtur að vera sú að ganga ekki nú þegar til samninga við sérgreinalækna utan opinbera kerfisins til að lina þjáningar allra þeirra sem bíða eftir betri og sjálfsögðum lífskjörum. Eins gæti það verið kostur að nýta betur aðrar heilbrigðisstofnanir sem búa bæði yfir mönnun og tækjum sem þarf til að bæta lífskjör allra þeirra sem bíða og bryðja bæði bólgueyðandi og verkjastillandi.

Því vil ég nýta þetta tækifæri hér og spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé full ástæða til að ganga nú þegar í stað í að semja um þessar valkvæðu aðgerðir þar sem við vitum að þessi kúrfa mun aðeins stækka á meðan við gerum okkar besta í að fletja aðra og ekki síður mikilvæga kúrfu.