Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:35]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka þetta greinargóða svar. Ég ætla að halda mig nokkuð á sama stað en nefna nú aðra samninga innan heilbrigðiskerfisins sem eftir á að ganga frá. Til að nefna dæmi eru það samningar við sjúkraþjálfara og svo SÁÁ. Framtíðarsýnin er að íslensk heilbrigðisþjónusta sé á heimsmælikvarða og lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir, að það sé hluti af allri þjónustu. Nú finnur fólk sérstaklega að hækkun hefur orðið á gjaldskrá sjúkraþjálfara þar sem ekki hefur verið samið við þá. Ég vil nefna sérstaklega í því sambandi eldri borgara sem hafa ekki alltaf mikið á milli handanna og finna því mjög til þessarar hækkunar. SÁÁ er svo önnur mikilvæg starfsemi og aukning hefur verið á þörf fyrir þjónustu þeirra. Nú síðast má sjá á vefsíðu þeirra ákall sem miðar að því að auka sálfræðiþjónustu fyrir börn alkóhólista, að hjálpa þeim að takast á við erfiðleika sem fylgja því að búa við áfengis- og vímuefnavanda.

Ég ítreka þá aftur: Hvað veldur því að ekki er gengið til samninga við alla þá aðila sem ekki hafa virkan samning við Sjúkratryggingar Íslands þannig að samfélagið allt geti virkað sem best og sérstaklega á þeim tíma sem við því miður horfumst í augu við?