151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:38]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Mikið væri nú gott ef við gætum staðið hér í allan dag að ræða heilbrigðismál. Það er því miður ekki möguleiki á því enda tíminn naumur en þetta er málaflokkur sem þarf svo sannarlega að gefa mjög mikla athygli. Hið opinbera heilbrigðiskerfi er óskabarn okkar. Langstærsti hluti þjóðarinnar vill að við tryggjum það kerfi, spítalana okkar, heilsugæsluna, að þetta virki sem skyldi og það hefur margsinnis sést bæði í könnunum og undirskriftalistum sem hefur verið safnað saman fyrir kosningar. Hv. velferðarnefnd fór í mikla vinnu í upphafi árs til að greina stöðuna á heilbrigðiskerfinu í heild sinni til þess einmitt að reyna að forðast upphrópanir þegar út af flæðir í vanda á einstökum stöðum, en þá hafði ítrekað borist okkur til eyrna og samfélaginu öllu alvarlegt ástand á bráðadeild Landspítala í Fossvogi.

Mig langar að ræða við starfandi hæstv. heilbrigðisráðherra stöðu Kragasjúkrahúsanna sem kom í ljós í þessari vinnu að eru vanfjármögnuð, reyndar eins og Landspítali. Einhverra hluta vegna hefur það verið þannig að þegar þessi sjúkrahús, sem og önnur sjúkrahús á landsbyggðinni, fá ekki nægt fjármagn þá loka þau á þjónustuna og senda allt á Landspítala. Því miður sé ég þess ekki merki í þessari fjármálaáætlun til næstu fimm ára að verið sé að auka verulega í sjúkrahúsin, hvorki Landspítala né Kragasjúkrahúsin, og það er eiginlega ekki sæmandi að tala um hækkun á framlagi í þennan geira þegar við erum að reisa hér nýjan spítala. Auðvitað fer töluvert fjármagn í byggingar heilsugæslu, hjúkrunarheimila og nýs Landspítala.