151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:43]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka starfandi heilbrigðisráðherra fyrir svarið og vil segja honum að ég tek tillit til þessara flóknu aðstæðna. Þetta er mjög umfangsmikill málaflokkur sem krefst mikillar yfirlegu og þess vegna er eðlilegt að maður fari kannski ekki í ítarleg smáatriði við starfandi heilbrigðisráðherra um þetta mál. Mig langar þá til að ræða við hann örlítið um stöðu geðheilbrigðismála og bera undir hann hugmynd þess efnis að ráðist verði í byggingu nýs geðsjúkrahús af því að geðdeildin við Hringbraut er ein af fáum deildum sem ekki njóta þess að fá nýtt sjúkrahús. Þetta er svona framtíðarhugmynd sem mig langar að bera upp við starfandi heilbrigðisráðherra, hvernig honum litist á að við myndum stíga næsta skref í þá átt að byggja upp gott, nútímalegt, mannúðlegt geðsjúkrahús eða geðmeðferðarstofnun sem gæti tekið á ýmsum þeim verkefnum sem í raun er erfitt að sinna eins og staðan er í húsnæðismálum í dag.