Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:12]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Nú erum við að fjalla um heilbrigðismál og þar er staðan því miður grafalvarleg. Hún er sérstaklega alvarleg í málefnum barna með geðræn vandamál. Í svari sem ég fékk frá heilbrigðisráðherra kemur fram að það eru 1.193 börn á biðlista eftir meðferð, þar af nær 600 börn sem bíða eftir greiningu hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Á sama tíma og þessi börn bíða má eiginlega segja að BUGL sé í uppnámi vegna kjaramála og vegna álags. Þar þarf að taka til hendi. Það þarf að setja fjármuni í barna- og unglingageðdeildina, það þarf að gera umhverfi starfsfólks þannig að því líði vel og að launin séu samkeppnisfær, jafnvel betri en bjóðast annars staðar, vegna þess að þarna erum við að taka á vanda sem á eftir að bíta okkur illa ef við gerum ekki neitt. Þarna erum við að reyna að spara krónur en henda tíu krónum vegna þess að þarna erum við að leika með framtíðina. Börnin eru framtíðin og við getum ekki leyft okkur að setja þau á bið. Við megum það ekki, við eigum ekki að gera það og við eigum alls ekki að nota Covid-19 sem afsökun fyrir því að lengja biðlista barna. Það er engin afsökun. Okkur ber skylda til þess, og ég vona að ráðherra taki undir það með mér, að leysa málið strax.