Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Jú, þetta er að mörgu leyti rétt, en þetta er líka að mörgu leyti undarlegt vegna þess að ég hef fengið þær upplýsingar frá foreldrum barna sem eru á bið, hvort sem það er á göngudeild eða annars staðar, að þau fá jú viðtal, fimm mínútna viðtal, en síðan ekki söguna meir, kannski viku eða mánuð eftir það. Þá eru þau í meðferð. Svona getum við ekki hagað okkur vegna þess að það má ekki gera þessa hluti gagnvart börnum. Það er engin afsökun til fyrir því að hafa ástandið eins og það er núna. Það gildir líka, eins og hefur komið hér fram, um liðskiptaaðgerðir. Ég fagna því að það á að fara að setja upp liðskiptamiðstöð Vesturlands. Það er mjög gott framtak og vonandi verður það til þess að við þurfum ekki að senda fólk til Svíþjóðar í liðskiptaaðgerðir sem er þrisvar sinnum dýrara en að gera það hér heima. Þarna er aukning úr rúmlega 400 manns í nær 900. Það hlýtur að vera skelfilegt vegna þess að ég sé bara ekki fram á það hvernig í ósköpunum á að taka á þessu í þessu ástandi. Þetta segir að við höfum sofið á verðinum í góðærinu.

Síðan hef ég líka verið að lesa um að það sé ófremdarástand í heilsugæslunni á Suðurnesjum. Þar ætti að vera tíu heilsugæslustöðvar en eru bara þrjár, þar komist fólk ekki til heimilislæknis eða yfirleitt til læknis eftir því sem ég var að lesa. Ef það er rétt þá er ástandið orðið alvarlega slæmt. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að maður komist í nærsveitum og nærumhverfi á heilsugæslu þegar maður þarf á því að halda.