Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:23]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Nú erum við að fjalla um málefni ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, hvernig honum er beitt og hvort stórauka eigi framlög til sjóðsins. Og ef svo er ekki væri örugglega hið besta mál að gera það, sérstaklega til að útbúa aðstöðu fyrir hreyfihamlaða á ferðamannastöðum. Því miður er pottur brotinn þar og einhvern veginn hefur það ekki verið forgangsmál að ganga þannig frá að ferðamannastaðir séu aðgengilegir fyrir alla. Stór hópur stendur þar fyrir utan sem hefur ekki fengið aðstöðu við hæfi vegna þess að hann þarf séraðstöðu fyrir hjólastóla. Síðan er auðvitað stór hópur sem á erfitt með gang. Væri ekki kjörið, sérstaklega núna þegar fáir ferðamenn eru á ferð, að spýta í og gera góða rassíu í að sjá til þess að allir komist að?

Hitt sem mig langar að spyrja hæstv. ráðerra um er í sambandi við rafvæðingu bílaflotans. Hvernig er staðan á því að rafvæða bifreiðir fatlaðra? Þarna er yfirleitt um stærri bíla að ræða. Það væri því mjög hagkvæmt ef fatlaðir gætu skipt yfir í rafbíla. Þá auðvitað, eins og staða þeirra flestra er, þyrftu þeir að fá meiri ívilnun til að geta skipt úr óhagkvæmum mengandi bílum yfir í rafbíla. Mig langar að spyrja hvort það sé á borði ráðherra að auka það.