Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:28]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Við getum verið sammála um að ömurlegt væri ef við þyrftum hreinlega að gefa út skipun um að svo væri. Ég held að það væri þá neyðarúrræði. En ég vil ítreka að þeir sem eru hreyfihamlaðir þurfa stærri bíla og þar af leiðandi hafa verið tollaívilnanir á þeim bílum. En núna þegar rafmagnið kemur verður mikil gjá þarna á milli. Þarna þarf að bæta í þannig að þeir sem eru í þeirri aðstöðu að þurfa sérútbúna bíla geti fengið rafvædda bíla á sömu kjörum og þeir fengu áður bensín- eða dísilbíla.

Í vor var kynnt markaðsherferð sem hafði það að markmiði að kynna Ísland erlendis sem ákjósanlegan ferðastað. Þessi markaðsherferð verður kostuð af ríkinu. Ráðherra telur að hún kosti 1,5 milljarða kr. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Telur hún að þessi markaðsherferð muni duga eða telur hún þörf á frekari aðgerðum?

Undanfarið hefur verið unnið markvisst að uppbyggingu aðstöðu á ferðamannastöðum. Í sumar bárust okkur þó fregnir um að aðstaða væri slæm og ágangur mikill fyrir heimamenn við Stuðlagil fyrir austan. Stendur til að grípa til aðgerða til að byggja upp aðstöðu fyrir ferðamenn á þeim merka stað í samstarfi við landeigendur, og á svipuðum stöðum þar sem ferðamenn eru að uppgötva nýja staði til að heimsækja? Hver eru framtíðarplönin um að vera tilbúin til að gera aðstöðu almennilega þannig að ekki verði tjón á náttúrunni?