Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

hækkun lífeyris almannatrygginga.

[10:41]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í bankahruninu var slegin skjaldborg um bankakerfið en heimilin skilin eftir og á annan tug þúsunda heimila voru tekin af fólki. Nú virðist stefnan vera að slá skjaldborg um fyrirtækin vegna veirunnar en skilja heimilin og ákveðinn stóran hóp þeirra verst settu eftir. Hæstv. fjármálaráðherra sagði hér í umræðu um fjárlagafrumvarpið að ákveðnir samningar væru í gildi um það hvernig reiknuð væri út 3,5% hækkun lífeyrislauna almannatrygginga. Launaskrið væri ekki þar inni heldur almennar hækkanir og þar af leiðandi væri launaskrið dregið frá og síðan væri það verðtryggingin. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um þetta, vegna þess að félags- og barnamálaráðherra sagði að þarna inni væri eingöngu verðtryggingin eða hækkun vísitölu neysluverðs: Hvernig er þetta reiknað út? Hversu mikið var launaskriðið sem var dregið frá þessu? Að hve miklu leyti eru umsamdar launahækkanir og verðbólga inni í 3,5%?

Það virðist enginn hafa séð þennan útreikning. Þetta virðist vera einhver ný leið til að halda niðri kjörum þeirra verst settu. Þarna er eitthvað stórfurðulegt í gangi því að samkvæmt fjárlagafrumvarpi á þetta að vera 5,2%, það er það sem ríkisstjórnin sér sem launaskrið og launahækkun á næsta ári. Það hlýtur að vera einhver furðulegur útreikningur sem kemur þessu niður í 3,5%. Nú vil ég bara fá útskýringar hjá hæstv. fjármálaráðherra á því hvernig hann reiknar þetta út.