151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

hækkun lífeyris almannatrygginga.

[10:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að segja að það er mikil rangtúlkun á því sem gerðist á árinu 2008 að slegin hafi verið skjaldborg um bankana. Það er eiginlega einmitt öfugt. Með því að ríkið lýsti því yfir að bönkunum yrði ekki bjargað afskrifuðust 7.000 milljarðar hér um bil, kröfur á fjármálakerfið. Hefði bönkunum verði bjargað, hefðu menn reynt það, hefðu menn fengið á ríkissjóð allar kröfur sem stóðu á bankana. Það er ágætt að hafa þetta á hreinu. Ríkið hefur endurheimt allan beinan kostnað við að bjarga fjármálakerfinu.

Ég ætla að segja um þetta mál, sem varðar 69. gr. þeirra laga sem hér eru undir, að þetta er gamalt umræðuefni hér í þinginu og við höfum skilað svörum hingað til þingsins um þetta í tilefni af skriflegum fyrirspurnum. Lögin eru túlkuð með þessum hætti, að hækkunin þurfi að vera að lágmarki verðbólgan. En ef umsamdar launahækkanir, almennar umsamdar launahækkanir í landinu, eru hærri þá eigi það að gilda.

Hv. þingmaður ber hér upp það sjónarmið að það beri að túlka 69. gr. þannig að launaskriðið eigi að vera með þannig að væntar hækkanir á launavísitölu næsta árs eigi að vera ráðandi. Þetta er ekki í samræmi við lögin. Þar endar sú umræða.