151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

hækkun lífeyris almannatrygginga.

[10:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við erum ekki að horfa á launavísitöluna og við erum ekkert að velta fyrir okkur hvert launaskriðið verður þegar gerð er tillaga til þingsins um þessi mál. Eingöngu er farið í rannsókn á því um hvað hefur verið samið um að gildi sem almennar launahækkanir á komandi ári. Ég leyfi mér að vísa í skrifleg svör fjármálaráðuneytisins um þetta til þingsins.

Hv. þingmaður spyr einnig um persónuafsláttinn og við áttum hér orðastað fyrir nokkrum dögum um hann. Þar mismælti ég mig þegar ég sagði að persónuafslátturinn hefði fylgt verðlagi. Það sem ég átti við var frítekjumarkið. Það sem við höfum ákveðið að gera í þeim skattbreytingum sem við erum að vinna að núna er að gæta þess að frítekjumarkið haldi í við verðlag. Þannig getum við, í samspili lækkanna á neðsta skattþrepinu og breytingar á persónuafslætti, tryggt að frítekjumarkið sé verðtryggt í gegnum breytingaferlið. Það er það sem á endanum skiptir mestu máli. Hér verða menn að horfa á samspil persónuafsláttar og skattprósentunnar (Forseti hringir.) í neðsta þrepinu.