151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

4. mál
[11:26]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framsöguna. Eins og hann nefndi réttilega er hér verið að bregðast við kröfum frá ESA, sem er í sjálfu sér ágætt. Ég vil hins vegar staldra við að menn hafa áhyggjur af því að óljóst sé hvaða áhrif þetta muni hafa, og það er beinlínis tekið fram í frumvarpinu. Þá spyr maður sig hvort þetta sé í raun nægilega vel undirbúið. Það er sem sagt verið að ræða um hagnað í einu félagi sem mætt getur tapi í öðru félagi. Hver eru áhrifin í raun á skattlagningu á Íslandi hvað þetta varðar? Hver er útfærslan á þessari samsköttun? Svo er líka lykilspurning: Er hægt að breyta aðildarríki samsköttunar, þ.e. er hægt að flytja skattlagninguna á milli landa árlega? Það er mikilvægt að fá það skýrt fram hér. Getur skattlagningin verið á Íslandi eitt árið, í Þýskalandi annað árið og í Bretlandi þriðja árið, svo að dæmi sé tekið? Er það rétt skilið hjá mér, hæstv. ráðherra, að hægt sé að flytja hana á milli landa? Er ekki að hætt við að við töpum þarna skatttekjum? Auk þess spyr ég: Hvar stendur Ísland í samanburði við önnur ríki innan EES hvað þetta varðar, samkeppnislega og skattalega séð? Það er alltaf flókið að flytja skattlagningu milli landa.

Síðan langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta hafi einhver áhrif á áform stjórnvalda um öfluga viðspyrnu. Erum við hugsanlega að missa þarna af skatttekjum? Það er beinlínis tekið fram að það sé óljóst. Þá veltir maður fyrir sér hvort þetta geti haft áhrif á viðspyrnu stjórnvalda, sem er ákaflega mikilvæg, og allar skatttekjur eru mikilvægar í því sambandi.