151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

4. mál
[11:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við sitjum uppi með að við getum ekki fullyrt nákvæmlega hvernig lögaðilar kjósa að hegða sér í þeim heimi sem við búum til í skattalegu tilliti. En það sem er undirliggjandi er sú viðleitni þeirra sem hafa eftirlit með framkvæmd EES-samningsins, að tryggja einsleitni á markaðnum. Hér hefur því sjónarmiði verið lyft að íslensku reglurnar um samsköttun og nýtingu eftirstöðva rekstrartaps kunni að brjóta í bága við reglur sem gilda fyrir samninginn um staðfesturétt og frjálst flæði fjármagns. Ef um það er einhver vafi, og fyrirtæki sem eru í alþjóðlegri starfsemi telja að Íslendingar ætli að beita þrengri túlkun sem ekki tíðkast annars staðar, getur það líka bitnað á vilja fyrirtækja sem eru með skattalega heimilisfesti hér til að halda henni til lengri tíma. Ef almennar skattareglur eru hagstæðari annars staðar á EES-svæðinu en hér kann það að hafa áhrif á vilja manna til að stjórna starfsemi sinni héðan. Það er ein leið til að nálgast það. Að því leyti til held ég að þetta sé jákvætt mál og varði samkeppnishæfni atvinnulífsins og almenn rekstrarskilyrði þess. Þetta er ekki stórmál eitt og sér, en vegna reglna um samsköttun, vegna þess að menn geta samskattað með fyrirtækjum sem skila tapi, og eins heimilum við móðurfélagi að óska eftir takmarkaðri samsköttun með dótturfélögum á viðkomandi svæðum, getum við orðið af tekjum, ef við horfum á málið í þeim tvívíða heimi. Ef við skoðum hlutina í stærra samhengi held ég að það sé jákvætt fyrir skatttekjur til lengri tíma að reglurnar séu samkeppnishæfar.