151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[12:00]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrri spurningu minni vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra aðeins út í hækkun á krónutölusköttum. Í fyrsta lagi spyr ég hvort það sé endilega rétt að hækka þá við þær aðstæður sem eru í þjóðfélaginu. Mig langar sérstaklega að spyrja um hækkun á krónutölusköttum sem varða áfengisgjald. Í svokölluðu næturhagkerfi er áfengi stór liður í rekstri fyrirtækja sem hafa mátt sæta miklum takmörkunum og lokunum. Ég spyr hvort ekki væri skynsamlegt að beita frekar tilslökunum í áfengisgjaldinu til að koma á til móts við þá rekstraraðila, hvort ekki sé of langt gengið að vera að hækka sérstaklega skatta á áfengi við þessar aðstæður.