151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[12:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tengi vel við áhyggjur hv. þingmanns af rekstraraðilum sem byggja afkomu sína að verulegu leyti á sölu áfengis. Ef við skoðum þetta í því ljósi að um er að ræða fastsetta krónutölu og verðlag í landinu er að hækka þá leiðir þessi 2,5% hækkun til þess að skattstofninn er að rýrna. Ég hygg að þær örfáu krónur sem um er að ræða fyrir einstaka áfenga drykki, ef við förum út í þá umræðu erum við að tala um örfáar krónur í hverju tilviki, muni ekki ráða úrslitum. Ég tel að umræða um stöðu veitingahúsa og kráa og annarra slíkra aðila eigi að taka í miklu stærra samhengi en um krónurnar sem bætast við verðlagsuppfærslu á þessum gjöldum. Ég er meira en til í umræðu um það hvort við séum einfaldlega komin allt of langt í þessari gjaldtöku. Þar koma inn lýðheilsusjónarmið en á hinni voginni eru þá (Forseti hringir.) rekstrarskilyrði umræddra aðila. Þá þurfum við að fara í rót málsins í stað þess að vera að velta fyrir okkur þeim örfáu krónum sem eru undir í þessu máli.