151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[12:06]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum alltaf að sjá nýja og nýja mynd af því hversu ömurlegt og skelfilegt þetta óféti er, þetta bútasaumaða skrímsli sem almannatryggingar eru orðnar og hvernig það bítur fólk illa. Við erum með erfðafjárskatt og við höfum áður tekið þessa umræðu við hæstv. fjármálaráðherra, að það er 5 millj. kr. frítekjumark — sem bítur hvernig? Jú, það bítur nær 3 milljónir af hjá öryrkjunum og yfir 3 milljónir af hjá eldri borgurum, sem eru á lægstu bótum almannatrygginga. Þetta finnst hæstv. ráðherra alveg gífurlega sanngjarnt.

Ég spyr: Hvernig fær hann það út að veikt fólk, sem er á lægstu bótum, sem þarf virkilega á þessum peningum að halda, eigi að borga inn í kerfið, en hinir, sem standa virkilega vel og hafa það gott, eigi ekki að gera það? Eigum við ekki að snúa þessu við? Eigum við ekki að láta þá sem þurfa helst á peningunum að halda að fá þá og skattleggja féð um allt að 50–60% hjá hinum sem ekki þurfa á því að halda?