151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[12:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alltaf opinn fyrir því að gera breytingar á kerfinu. Ég tel að kerfin séu ekki fengin okkur mönnunum af himnum ofan heldur eru þau einfaldlega mannanna verk og sýna viðleitni okkar til þess að gera vel við samborgara okkar sem af ýmsum ástæðum hafa ekki sömu tækifæri í lífinu eða hafa orðið undir, hafa ekki í tilviki ellilífeyrisþega náð að nýta starfsævina til að byggja upp lífeyri og í tilviki örorkulífeyrisþega orðið fyrir áfalli. Það getur verið af ýmsum ástæðum. Ég er meira en reiðubúinn til að ræða breytingar á þessum kerfum. En ég vil alltaf halda því til haga þegar menn benda á gallana á kerfinu hversu stórt það er, hversu miklu hefur í raun og veru verið bætt við í þessu kerfi á undanförnum árum, hversu mikið við leggjum á okkur til að standa með fólki sem er í veikri stöðu. Við gerum það. Við notum verulegan hluta af skatttekjum okkar (Forseti hringir.) í þessa málaflokka og við gerum það þannig að það rati helst og mest til þeirra sem minnst hafa.