151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[12:09]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Jú, ég er sammála, þetta er rosalega stórt kerfi og einmitt þess vegna þyrfti það að vera einfalt. Við sjáum núna að verið er að breyta út af víxlverkun lífeyrissjóða. Þetta þarf að gera á hverju ári. Síðan er frítekjumarkið. Hæstv. ráðherra kemur hingað upp og segir: Það verður óbreytt, 109.000 kr. á næsta ári. Það er ekki óbreytt. Það er lækkun. Ef það væri óbreytt ætti það að taka vísitöluhækkun og vera 112.500 kr. Þarna er verið að setja skatta á þá sem síst skyldi, fólkið sem er virkilega að reyna eftir bestu getu að vera í vinnu.

Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum getið þið ekki einu sinni hækkað þetta um 3,5%, þessi litlu 3,5%? Ekki um 5,2% eins og það ætti að vera, eða 7%. Nei, þið ætlið að halda þessu óbreyttu og eruð stoltir af því. Ég sé ekki hvernig hægt er að vera stoltur af því að hafa þetta svona vegna þess að þetta er skattahækkun.