151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[12:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við settum fjármuni í rannsóknir á bótasvikum fyrir nokkrum árum og ég tel að það hafi skilað árangri en ég er þeirrar skoðunar að við gætum gert meira. Hér í dag hefur verið minnst á það hvort við ættum ekki að nýta betur upplýsingakerfin okkar til að finna frávik og rannsaka þau o.s.frv. Ég er mjög á þeirri línu og ég tel að við séum bara rétt búin að skrapa yfirborðið á því sem við gætum gert með því að nota gögn betur. Bótasvikin eru einmitt málaflokkur sem byggir í raun og veru á því að greina undirliggjandi gögn þannig að menn skimi fyrir einhverjum frávikum sem eru óeðlileg og taki þau til sérstakrar skoðunar.

Varðandi skattrannsóknirnar hef ég mælt fyrir því hér við þingið oftar en einu sinni að við myndum auka við framlög til þeirra. Við erum að gera það enn og aftur núna (Forseti hringir.) og mér líður ágætlega með það hvernig þær eru fjármagnaðar. (Forseti hringir.) Samkvæmt minni bestu vitund erum við að mæta væntingum kerfisins um það.