151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[12:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get fullyrt að heildaráhrif fjárlagafrumvarpsins og ráðstafana ríkisins á næsta ári munu koma þeim tekjulægstu betur en þeim sem tekjuhærri eru. Það leiðir ekki síst af tekjuskattslækkuninni sem er umtalsverð og verður í neðsta skattþrepinu og mun auka ráðstöfunartekjur þeirra fyrst og fremst sem eru að greiða skatta af tekjum undir 450.000 kr., þetta mun leiða til þess að ráðstöfunartekjur þeirra hækka. Þar fyrir utan eru í lífskjarasamningunum sérstakar hækkanir til þessara hópa þannig að kjör þeirra, mæld í kaupmætti launa, eru að batna hraðar en annarra hópa. Tekjuhái einstaklingurinn og hinn tekjulági greiða líka skatta hlutfallslega af launum sínum. Þegar tekjuhár einstaklingur fer út að pylsuvagni og fær sér pylsu má hann bara gera það með góðri samvisku við hliðina á hverjum öðrum sem er; hann hefur skilað sínum sköttum og hann greiðir bæði hlutfallslega og í krónum talið meira til samneyslunnar.