151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[12:19]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki að spyrja um skatthlutfallsbreytinguna. Ég var að spyrja hvort þessar tilteknu gjaldskrárhækkanir myndu leiða af sér meiri ójöfnuð, sérstaklega í ljósi þess að megnið af þessum gjaldskrárhækkunum á við um fyrirtæki fyrst og fremst. Það getur leitt af sér keðjuverkandi áhrif og valdið því að verðlag hækki almennt í samfélaginu. Ég hef aldrei nokkurn tímann séð greiningu frá fjármálaráðuneytinu eða frá nokkrum öðrum um það hvaða áhrif gjaldskrárbreytingar hjá ríkinu hafa á verðlag í landinu, og þar af leiðandi á afkomu fólks í samfélaginu. Mér finnst hæstv. ráðherra vera mjög duglegur við að draga fram hin og þessi hugtök til þess einhvern veginn að réttlæta það að einhver heildaráhrif séu til staðar. En staðreyndin er sú að aldrei hefur verið gerð greining á þessum gjaldskrárhækkunum með fullnægjandi hætti, með vísan til þess að hagkerfið er ekki bara ein og ein viðskipti heldur samfella sem hefur áhrif á okkur öll.