151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[12:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér ræðir hv. þingmaður um ýmis stuðningskerfi ríkisins og nefnir vaxtabætur, barnabætur og aðra þætti sem eru mikilvægir í kerfunum okkar. Ef við horfum til þess hvernig ríkisstjórnin er að beita þessum stuðningskerfum í gegnum erfiða tíma, er m.a. að láta bætur hækka umfram verðlag þessi misserin, og berum það saman við það sem gerðist á árunum eftir hrun sjáum við alveg gjörólíka mynd.

Hv. þingmaður var í þeirri ríkisstjórn, hluta tímans sem fjármálaráðherra og var í stjórnarmeirihlutanum allan tímann. Við getum tekið dæmin, hvert á eftir öðru. Persónuafsláttur var frystur, hann fékk ekki að hækka í samræmi við verðlag. Þá voru innleiddar sérstakrar skerðingar á bætur almannatrygginga og framan af kjörtímabilinu fengu barnabætur meira að segja ekki að þróast eins og gerst hafði á árunum þar á undan. Og hingað kemur hv. þingmaður og boðar að við eigum að láta bætur almannatrygginga ekki bara hækka eins og verðlag eða laun í landinu heldur fylgja launavísitölu. Hversu trúverðugt á þetta að vera í ljósi þess að hv. þingmaður hefur setið í stjórnarmeirihluta á fyrri tíð og stýrt öllum þessum stuðningskerfum í gegnum krepputíma? Þá var farin allt önnur leið.

Eru menn ekki í raun og veru með yfirboð hér? Það hljómar þannig í mín eyru. Flest af því sem sagt er til að veita stjórninni aðhald núna finnst mér vera í raun og veru: Þið eruð á hárréttri leið. Þið þurfið bara að gera aðeins meira.